21.05.2007 13:35

Cairo

Cairo

Lokastaðurinn var Cairo í Egyptalandi og vorum við spenntir fyrir
honum og eins spenntir fyrir því að koma heim. Við tókum því lífinu
með ró, við tókum líka eftir því að Cairo var risastór, þarna búa víst
í borginni í kringum 20 milljónir. Við tókum fyrsta daginn rólega og
slöppuðum af og rétt svo litum um miðbæinn þar sem við vorum einmitt
staðsettir.

Upphafleg ætluðum við til Cairo útaf Pýramídunum frægu og því fórum
við auðvitað að skoða þá. Við tókum því næsta dag í að fara þangað.
Bílstjórinn Farrahk fór með okkur þangað en við settum smá
spurningarmerki við hann þar sem eiginlega eina sem koma upp úr honum
voru orðin "really" og "Oh my God" og svo þess á milli söng hann "I'm
waiting for the postman to bring me the post" sem var ofarlega í
huganum á honum. Farrahk var samt hinn besti bílstjóri og komst í
gegnum umferðina með mikilli snilld, sérstaklega þar sem ekkert í
mælaborðinu virkaði, ekki einu sinni bensínmælirinn. Hvernig hann
fattaði hvenær ætti að setja bensín á bílinn er því smá pæling. En
bíllinn virkaði og pýramídanir blöstu að lokum við okkur og var
merkilegt að sjá þá. Við gengum um pýramídana og fórum einnig inn í
einn, en þá fer maður inn í svaka þröng göng sem ná fyrst svolítið
niður í jörðu og svo leita þau aftur upp í eins konar grafhús. Það sem
eftir var dags skoðuðum við svo annan pýramída og rústir lengra í
burtu og var þetta allt mjög gaman að sjá en við vorum þreyttir að
lokum enda mikill hiti og sól og sandur allt í kring. Við komumst að
því reyndar þegar við settumst niður að borða á einum stað á leiðinni
að við hefðum getað keypt lítið ljón fyrir aðeins 300 þús. kr. en við
ákváðum með að geyma það þangað til síðar.

Næstu daga tókum við í að rölta um borgina og fara á einn elsta markað
sem um er getið en hann er frá 13. öld. Svo fórum við líka á The
Egyptian Museum sem er risastórt gamalt safn með endalaust af hinum og
þessum munum, allt frá eldgömlum papýrus og múmíum til stórra stytta
og gull kistna.

Eftir að hafa sogið í okkur menningu Egyptalands var lítið eftir að
dvöl okkar og fóru í raun síðustu tveir dagar okkar í að bíða bara
eftir heimkomu og pakka niður í síðasta sinn, enn erfiðara var að
pakka niður með hverjum áfangastaðnum, alltaf virtist eitthvað vilja
bætast í töskuna.

En tíminn leið og komið var að lokum. Farrahk skutlaði okkur á
flugvöllinn og kvöddum við Egyptaland og um leið lokastaðinn okkar.
Flugum við svo rakleiðis til Heathrow í London. Bretar eru með harðar
öryggisreglur og fastir á því að aðeins sé tekinn ein taska í gegnum
chekkið hjá þeim. Það var til þess að Daði og Fannar þurftu að bregða
sér á snyrtinguna og klæða sig í sérsniðnu jakkafötin sem við höfðum
ferðast með frá því í Tælandi. Því er ekki annað hægt að segja en
farið var vel til fara í gegnum tollinn í London.

Við tók svo 9 tíma bið á flugvellinum. En tíminn flaug einhvert og
áður en við vissum vorum við um borð hjá Icelandair, umkringdir
íslendingum og flugfreyjum sem töluðu íslensku. Og hinn íslenski
flugvélamatur fór vel í magann hjá okkur piltunum.

Lentum við svo um miðnætti á föstudegi. Við vorum snöggir í gegnum
fríhöfnina, tókum töskuna okkar af færibandinu í síðasta skipti. Eftir
það þökkuðum við hvorum öðrum fyrir ferðina og löbbuðum í gegnum
íslenska tollinn þar sem kunnugleg andlit tóku á móti okkur.

Þannig að eftir 4 mánuði og 15 lönd á leiðinni um heiminn vorum við
meira en sáttir, urðum veraldarvanir og uppskárum fínan brúnan lit.

Þetta er því búið hjá okkur og er þetta eiginlega lokafærslan. Við
bætum þó líklega einni færstu við seinna og setjum kannski inn fáeinar
myndir.

Bestu kveðjur,
Heimsreisu mennirnir
Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 73
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 29063
Samtals gestir: 3692
Tölur uppfærðar: 8.5.2025 21:40:05