Færslur: 2007 Maí
21.05.2007 13:35
Cairo
Lokastaðurinn var Cairo í Egyptalandi og vorum við spenntir fyrir
honum og eins spenntir fyrir því að koma heim. Við tókum því lífinu
með ró, við tókum líka eftir því að Cairo var risastór, þarna búa víst
í borginni í kringum 20 milljónir. Við tókum fyrsta daginn rólega og
slöppuðum af og rétt svo litum um miðbæinn þar sem við vorum einmitt
staðsettir.
Upphafleg ætluðum við til Cairo útaf Pýramídunum frægu og því fórum
við auðvitað að skoða þá. Við tókum því næsta dag í að fara þangað.
Bílstjórinn Farrahk fór með okkur þangað en við settum smá
spurningarmerki við hann þar sem eiginlega eina sem koma upp úr honum
voru orðin "really" og "Oh my God" og svo þess á milli söng hann "I'm
waiting for the postman to bring me the post" sem var ofarlega í
huganum á honum. Farrahk var samt hinn besti bílstjóri og komst í
gegnum umferðina með mikilli snilld, sérstaklega þar sem ekkert í
mælaborðinu virkaði, ekki einu sinni bensínmælirinn. Hvernig hann
fattaði hvenær ætti að setja bensín á bílinn er því smá pæling. En
bíllinn virkaði og pýramídanir blöstu að lokum við okkur og var
merkilegt að sjá þá. Við gengum um pýramídana og fórum einnig inn í
einn, en þá fer maður inn í svaka þröng göng sem ná fyrst svolítið
niður í jörðu og svo leita þau aftur upp í eins konar grafhús. Það sem
eftir var dags skoðuðum við svo annan pýramída og rústir lengra í
burtu og var þetta allt mjög gaman að sjá en við vorum þreyttir að
lokum enda mikill hiti og sól og sandur allt í kring. Við komumst að
því reyndar þegar við settumst niður að borða á einum stað á leiðinni
að við hefðum getað keypt lítið ljón fyrir aðeins 300 þús. kr. en við
ákváðum með að geyma það þangað til síðar.
Næstu daga tókum við í að rölta um borgina og fara á einn elsta markað
sem um er getið en hann er frá 13. öld. Svo fórum við líka á The
Egyptian Museum sem er risastórt gamalt safn með endalaust af hinum og
þessum munum, allt frá eldgömlum papýrus og múmíum til stórra stytta
og gull kistna.
Eftir að hafa sogið í okkur menningu Egyptalands var lítið eftir að
dvöl okkar og fóru í raun síðustu tveir dagar okkar í að bíða bara
eftir heimkomu og pakka niður í síðasta sinn, enn erfiðara var að
pakka niður með hverjum áfangastaðnum, alltaf virtist eitthvað vilja
bætast í töskuna.
En tíminn leið og komið var að lokum. Farrahk skutlaði okkur á
flugvöllinn og kvöddum við Egyptaland og um leið lokastaðinn okkar.
Flugum við svo rakleiðis til Heathrow í London. Bretar eru með harðar
öryggisreglur og fastir á því að aðeins sé tekinn ein taska í gegnum
chekkið hjá þeim. Það var til þess að Daði og Fannar þurftu að bregða
sér á snyrtinguna og klæða sig í sérsniðnu jakkafötin sem við höfðum
ferðast með frá því í Tælandi. Því er ekki annað hægt að segja en
farið var vel til fara í gegnum tollinn í London.
Við tók svo 9 tíma bið á flugvellinum. En tíminn flaug einhvert og
áður en við vissum vorum við um borð hjá Icelandair, umkringdir
íslendingum og flugfreyjum sem töluðu íslensku. Og hinn íslenski
flugvélamatur fór vel í magann hjá okkur piltunum.
Lentum við svo um miðnætti á föstudegi. Við vorum snöggir í gegnum
fríhöfnina, tókum töskuna okkar af færibandinu í síðasta skipti. Eftir
það þökkuðum við hvorum öðrum fyrir ferðina og löbbuðum í gegnum
íslenska tollinn þar sem kunnugleg andlit tóku á móti okkur.
Þannig að eftir 4 mánuði og 15 lönd á leiðinni um heiminn vorum við
meira en sáttir, urðum veraldarvanir og uppskárum fínan brúnan lit.
Þetta er því búið hjá okkur og er þetta eiginlega lokafærslan. Við
bætum þó líklega einni færstu við seinna og setjum kannski inn fáeinar
myndir.
Bestu kveðjur,
Heimsreisu mennirnir
09.05.2007 07:59
Dubai
06.05.2007 15:10
Hong Kong og Indland
Hong Kong
Vid mættum þann 22 april til Hong Kong. Ég neita því ekki að við settum spurningamerki við það að vera í borginni í 6 daga þar sem Singapore var frekar leiðinleg en þar vorum við aðeins í 2 daga.
Við gistum í hverfi sem kallast Koowlon. Það er rétt fyrir utan Hong Kong eyjuna sem er aðalhluti Hong Kong. Þar eru allir skýjaklúfrarnir m.a. 5 hæsta bygging í heimi.
Þar sem við höfðum nægan tíma tókum við því rólega, vöknuðum seint, sátum mikið á kaffihúsum og röltum um borgina.
Það helsta við sem skoðuðum var Soho; hverfi sem var ekkert merkilegt nema að þar var rúllustigi þar sem var nánast endalaus, hann var skemmtilegri en hverfið. Einnig fórum við á the Peak sem er hæð/fjall á Hong Kong eyju. Þar var ótrúlegt útsýni, þar gat maður séð yfir alla borgina. Um kvöldið sáum við síðan skýjaborgina að kvöldi til en þá var einskonar ljósashow í gangi sem var hið fínasta.
TIl að vera menningarlegir(voru búnir að borða aðeins of mikið af McDonalds)skelltum við okkur í hádegismat að hætti Kínverja sem kallast Dim Sum. Maturinn leit ekki vel út en bragðaðist ansi vel. Maturinn samanstóð af 8 réttum og grænu te.
Meistaradeildin í fótbolta kryddaði uppá dvöl okkar í Hong Kong. Eins og sannir stuðningsmenn fórum við að nóttu til á írskan pub að horfa á Liverpool vs. Chelsea og Man Utd vs. Milan.
Ein klisjan um asíubúa er að þeir elska karíókí. Þar sem margar hugmyndir fólks um önnur lönd eiga ekki við rök að styðjast þá ákváðum við að komast að hinu sanna.... og getið hvað jú við fundum nokkra vonlausa kínverska gaura blindfulla á karíókíbar á þriðjudagskvölid kl 22.30. Þeir undirskrikiðu sitt eigið vonleysi með því að rífa af okkur míkrafóninn og gefa okkur high five í tíma og ótíma. Frammistaða kvöldsins var án efa "As long as you love me" með Backstreet Boys sem Einar og Davíð rústuðu.
Indland
Ég viðurkenni fúslega að við fjórmenningarnir vissum ekki alveg við hverju við áttum að búast við komuna til Indlands. Við höfðum nú þegar ferðast til margra landa en aldrei fengið "menningarsjokk" þar sem allir heimurinn virtist fram af þessu ekki svo ólíkur.
Indland var öðruvísi.
Þetta byrjaði ekki vel hjá okkur. Við lentum um 3 að nótti til, og að sjálfsögðu vorum við ekki með neina addressu á hótelinu okkar enda væri það fáranlegt. Nokkrum klst og 1250 rúblum seinna vorum við komnir á hótelið okkar í Delhi.
Morgnuninn eftir vorum við með bílstjóra sem sýndi okkur helstu staðina í borginni. Sáum ýmsar hallir og rákumst m.a. á slöngutemjara og Kama Sutra snilling. En eitt var augljóst, það er mikið af fátæku fólki í Indlandi.
Frammundan var 3 daga ferðalag um Indland. Planið var hinn "Gullni þríhyrningur": Delhi-Jaipur(kölluð bleika borgin)-Agra(Taj Mahal).
Fyrsti dagur "road tripsins" var góður fyrir utan 45 stiga hitann. Maður sá margt á leiðinn m.a. fíla, úlfalda, kýr o.fl. Það tók sinn tíma að keyra þetta en væri hægt að skrifa margar bækur um hvernig Indverjar keyra. Það var bara einu sinni klest á okkur sem mér þykir vera kraftaverk. Mikið var um villt dýr á leiðinni, hin heilaga kú labbaði villt um götur borganna beint fyrir bílana en það skiptir ekki máli því beljan á réttinn, einnig var allt krögt af kameldýrum, apar sáust og villisvínin voru svöng að venju.
Við skoðuðum virki, hallir og bleiku borgina Jaipur þar sem öll húsin í gamla hlutanum eru bleik. Einnig kíktum við til tesala og klæðskera.
Nú lá leiðin til Agra, borg sem þekktust er fyrir höllina/grafhýsið Taj Mahal. Sumir staðir eiga það til að valda manni vonbrigðum meðan aðrir koma á óvart. Taj Mahal kom ekki á óvart þar sem maður bjóst við mjög miklu en olli alls ekki vonbrigðum. Taj Mahal er ótrúleg smíði og var mjög gaman að sjá sólina setjast á þessum fallega stað. Fólk átti það til að biðja okkur og þá sérstaklega Einar um að vera með á myndum. Við vorum ekki að átta okkur á þessu fyrst en síðar kom það í ljós að Einar líkist ekki einum heldur tveimur Bollywood kvikmyndastjörnum. Það var ævintýrabragur yfir Taj Mahal mikið var um villta apa sem sátu með fólkinu og þegar sólin sast við höllina fannst manni eins og maður væri uppi á allt öðrum tíma en árið 2007.
Á leiðinni heim til Delhi stoppuðum við í búð sem framleiddi og seldi pernesk teppi og var ótrúlegt að sjá nákvæmnisvinnunna sem liggur þar á bakvið. Það sama á við um marmaraframleiðsluna.
Indlan er að okkar mati athyglisverður áfangastaður, landið er spennandi. Hér sér maður hluti sem sjaldan sjást í öðrum löndum en ýmsir eru gallarnir. Það er hræðilegt að horfa uppá fátæktina.
Kv. Heimsreisustrákarnir
- 1